Irving harðneitar að láta bólusetja sig fyrir kórónuveirunni. Hann má því ekki spila heimaleiki Brooklyn því reglur í New York kveða á um að íþróttafólk í innanhúsíþróttum þurfi að vera bólusett til að mega spila.
Í fyrrdag sendi Brooklyn svo frá sér yfirlýsingu þess efnis að Irving myndi hvorki æfa né spila með liðinu meðan hann er óbólusettur.
„Nei, ég ætla ekki að hætta svona. Ég á enn eftir að gera svo margt og það eru svo margir ungir strákar sem ég á eftir að hrífa því ég veit að þeir vilja verða betri en ég. Og ég get ekki beðið eftir að spila við þá,“ sagði Irving.
„Haldiði virkilega að ég vilji tapa peningum? Haldiði virkilega að ég ætli að gefa drauminn á að vinna annan meistaratitil upp á bátinn? Haldiði virkilega að ég vilji hætta í vinnunni minni?“
Irving gekk í raðir Brooklyn fyrir tveimur árum. Á síðasta tímabili var hann með 26,9 stig, 4,8 fráköst og 6,0 stoðsendingar að meðaltali í leik. Brooklyn tapaði fyrir Milwaukee Bucks í oddaleik í undanúrslitum Austurdeildarinnar. Irving missti af síðustu þremur leikjunum í einvíginu vegna meiðsla.