Svona hófst Heimsókn Sindra Sindrasonar á Stöð 2 þar sem hann tók púslinn á fjölbreyttum hópi starfsmanna í tilefni 35 ára afmælis stöðvarinnar. Atriðið var sýnt í afmælisþætti Stöðvar 2 á laugardaginn.
Sindri byrjaði daginn auðvitað á því að Eva Laufey Kjaran tók á móti honum í andyrinu, með kaffi tilbúið fyrir kappann. Sindri kíkti því næst á framleiðsludeildina þar sem hann hitti fyrir Gunnlaug Helgason, sem sér um þættina Gulli Byggir, Evu Laufey Kjaran, sem sér um Blindan Bakstur og Ísskápastríð, Auðunn Blöndal, Steinþór Hróar Steinþórsson og fleiri.
„Hún er örugglega að fara að baka eitthvað“
Sindri spurði Audda hvað færi nú eiginlega fram í framleiðsludeildinni.
„Uuuuuu, ég er nú bara að stilla upp liðinu mínu í fantasy núna ef ég á að vera hreinskilinn,“ svaraði Auddi en tók svo fram að þættirnir Stóra sviðið, þar sem hann og Steindi keppa í ýmsum þrautum og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir stýrir.

„Við erum reyndar að undirbúa það núna við Steindi. Hann er að þykjast vera í tölvunni, hann veit ekki lykilnúmerið sitt“ sagði Auddi og benti á Steinda.
„Þekkirðu bara þína þætti eða veistu hvað til dæmis Eva Laufey er að fara að gera?“ spurði Sindri næst.
„Hún er örugglega að fara að baka eitthvað,“ svaraði Auddi.
„Hættu þessu sjónvarpsrugli“
Því næst kíkti Sindri á dagskrárdeildina og svo auglýsingadeildina og að lokum á útvarpsmennina sem standa vaktina á FM957, Bylgjunni og X-inu.
„Hvað er í gangi?“
„Það er allt að gerast kallinn minn! Sindri, þú átt að vera á Bylgjunni. Hætta þessu sjónvarpsrugli,“ svaraði Ívar Guðmundsson, útvarpsmaður, þegar Sindri kíkti inn til hans.
Því næst stökk Sindri yfir á fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar þar sem hann hitti liðið á daglegum fréttafundi og tók Jakob Bjarnar, blaðamann á tal.

„Nú erum við að skrifa hérna skúbb en Vísir er náttúrulega orðinn stærsti fjölmiðill á Íslandi og hefur verið lengi en nú fyrst er fólk að átta sig á því. Þá erum við að dansa!“ segir Jakob Bjarnar.
Hægt er að horfa á Heimsókn Sindra á Stöð 2 í heild sinni í spilaranum hér að neðan.