Erlent

Allir á vinnumarkaði verða að framvísa „grænum passa“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kennari framvísar heilbrigðisvottorði, svokölluðum „grænum passa“, við komuna í vinnuna.
Kennari framvísar heilbrigðisvottorði, svokölluðum „grænum passa“, við komuna í vinnuna. AP/Andrew Medichini

Allir einstaklingar á vinnumarkaði á Ítalíu verða að sýna fram á bólusetningu, neikvætt Covid-próf eða vottorð um fyrri sýkingu til að mega mæta til vinnu. Um er að ræða einar hörðustu reglur sinnar tegundar í heiminum.

Samkvæmt BBC munu þeir sem ekki fara að reglunum eiga yfir höfði sér að missa vinnuna og þá má stöðva launagreiðslur til þeirra að fimm dögum liðnum. Reglurnar taka gildi 15. október næstkomandi en þær miða meðal annars að fjölga bólusetningum í landinu.

Nú þegar þurfa Ítalir að framvísa svokölluðum „grænum passa“ til að fá aðgang að lestarstöðvum, veitingastöðum, líkamsræktarstöðvum og sundlaugum. Passarnir eru bæði fáanlegir rafrænt og á pappír.

Allir starfsmenn skóla þurfa sömuleiðis að framvísa passa áður en þeir mæta til vinnu og fregnir hafa borist af uppsögnum kennara sem hafa ekki verið bólusettir.

Nýju reglurnar ná ekki bara til þeirra sem starfa hjá öðrum heldur einnig einyrkja.

Ítalía hefur farið illa út úr kórónuveirufaraldrinum. Um 65 prósent þjóðarinnar eru fullbólusett en smitum hefur farið fjölgandi í kjölfar útbreiðslu delta-afbrigðisins. Um 4,6 milljón tilfelli Covid-19 hafa greinst í landinu og þá hafa 130 þúsund manns látið lífið af völdum sjúkdómsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×