Fjöldi kvenna hefur stigið fram og sakað Kelly, 54 ára, um kynferðisbrot og aðra misnotkun en hann hefur verið ákærður fyrir mansal. Söngvarinn neitar sök og lögmenn hans segja konurnar grúppíur sem hafi mislíkað þegar Kelly hætti samskiptum við þær. Dómsmál yfir Kelly stendur nú yfir í New York.
Í frétt CNN segir að við réttarhöldin hafi meðal annars komið fram í máli fjölda kvenna sem vitna gegn Kelly að þær hafi verið látnar skrifa bréf sem innihéldu alls konar rangar upplýsingar um samband þeirra og Kelly. Kelly geymdi svo bréfin.
Saka Kelly um að hafa ætlað að nýta bréfin sér til verndar
Konurnar vitna flestar undir dulnöfnum og í máli konu sem kölluð er Jane í frétt CNN segir að hún hafi greint frá því að hún og aðrar kærustur Kelly hafi verið látnar skrifa fjögur til fimm bréf á ári hverju.
Verjandi Kelly las upp úr einu bréfinu sem Jane skrifaði.
„Ef hann vissi að ég væri sautján ára myndi hann alveg láta mig í friði,“ stóð í einu bréfi Jane. Sagði Jane að Kelly hefði látið hana skrifa þetta og að ekki væri sannleikskorn að finna í þessum bréfum.

„Ég ætla að segja öllum að þú hafir nauðgað mér. Ég ætla að segja að þú hafir nauðgað mér alveg frá því að ég var barn,“ skrifaði Jane í öðru bréfi.
Aðspurð að því hvort að hún teldi að Kelly hefði látið hana skrifa bréfið til þess að vernda sig vegna málsókna sagði Jane að hún teldi svo vera.
Í frétt CNN er vísað í mál Keith Raniere, leiðtoga kynlífssértrúarsafnaðarins Nxivm í Bandaríkjunum sem dæmdur var í fangelsi fyrir kynlífsþrælkun. Lét hann meðal annars fórnarlömb sín skrifa bréf þar sem fram komu meiðandi upplýsingar um bréfritara. Þetta gerði hann til þess að ná stjórn á viðkomandi með því að segjast ætla að birta bréfin nema viðkomandi léti að stjórn.
Í fréttinni er einnig rætt við einn af saksóknurunum sem kom að máli Raniere sem segir að það sé vel þekkt í sams konar málum og R. Kelly er nú að svara fyrir, að láta fórnarlömb skrifa slík bréf og láta hótun fylgja með um að þau verði birt hagi viðkomandi sér í takt við vilja gerandans.