Erlent

Suga hyggst hætta sem for­sætis­ráð­herra

Atli Ísleifsson skrifar
Yoshihide Suga tók við sem forsætisráðherra Japans á síðasta ári af Shinzo Abe sem þá hafði gegnt embættinu í átta ár samfleytt.
Yoshihide Suga tók við sem forsætisráðherra Japans á síðasta ári af Shinzo Abe sem þá hafði gegnt embættinu í átta ár samfleytt. EPA

Yoshihide Suga, forsætisráðherra Japans, hefur tilkynnt að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri sem flokksformaður Frjálslynda flokksins á landsfundi síðar í mánuðinum. Hann mun því hætta sem forsætisráðherra eftir um ár í embættinu.

Suga var gerður að flokksformanni og þá forsætisráðherra fyrir um ári þegar Shinzo Abe sagði af sér eftir um átta ár í embætti.

Tilkynning Suga var óvænt, en vinsældir hans hafa hrapað síðustu vikurnar og hafa aldrei mælst minni. Neyðarástandi var lýst yfir í Japan í sumar og glímir landið nú við umfangsmestu smitbylgjuna frá upphafi heimsfaraldursins.

Alls hafa nú 1,5 milljónir manna greinst með kórónuveiruna og þá hefur verulega hægt á bólusetningum í landinu að undanförnu. Sú ákvörðun að halda Ólympíuleikana í Tókýó í miðjum heimsfaraldri hefur einnig sætt mikilli gagnrýni í landinu.

Af jarðarberjabændum kominn

Landsþing Frjálslynda flokksins verður haldið 29. september næstkomandi þar sem nýr formaður verður valinn. Má fastlega búast við að sá sem verður fyrir valinu verði einnig næsti forsætisráðherra þar sem Frjálslyndi flokkurinn er með hreinan meirihluta á þingi.

Hinn 72 ára Suga er af jarðarberjabændum kominn og tók sæti í borgarstjórn Yokohama árið 1987. Hann var fyrst kjörinn á japanska þingið árið 1996. Árið 2005 skipaði Junichiro Koizumi Suga sem aðstoðarráðherra innanríkis- og samskiptamála. Ári síðar gerði Abe, sem einnig gegndi embætti forsætisráðherra á árunum 2006 til 2007, Suga að ráðherra þriggja málaflokka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×