Erlent

Ungir um­hverfis­sinnar loka orku­mála­ráðu­neyti Noregs

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Umhverfissinnar sitja fyrir inngangi orkumálaráðuneytis Noregs í Osló.
Umhverfissinnar sitja fyrir inngangi orkumálaráðuneytis Noregs í Osló. EPA-EFE/OLE BERG-RUSTEN

Um 150 umhverfissinnar lokuðu fyrir aðgengi að orkumálaráðuneyti Noregs í dag. Hátt í tuttugu þeirra gripu til þess ráðs að fara inn í anddyri ráðuneytisins til að mótmæla og hafa þeir ekki farið þaðan út í dag.

Aðgerðasinnarnir eru í hópnum Extinction Rebellion, sem á upptök sín í Bretlandi en hefur breytt úr sér um Evrópu. Mótmælahreyfingin er talin nokkuð róttæk en í Bretlandi hefur hún meðal annars staðið fyrir því að loka vegum, og heilum hverfum með mótmælum. Fréttastofa Reuters greinir frá.

Aðgerðasinnar mótmæla í anddyri ráðuneytisins.EPA-EFE/OLE BERG-RUSTEN

Norsku aðgerðasinnarnir mótmæla olíuiðnaði lands síns en nú stendur yfir tíu daga mótmælaaðgerð Extinction Rebellion í Noregi. Noregur er stærsti olíu- og náttúrugasframleiðandi Vestur-Evrópu en um fjórar milljónir olíutunna eru framleiddar í Noregi á hverjum degi.

„Í fjóra áratugi höfum við skrifað bréf, við höfum haldið uppi samtali, við höfum mótmælt. Við fáum að tala en það hlustar enginn á okkur,“ sagði Hanna Kristina Jakobsen, 22 ára aðgerðasinni, við mótmælendur.

„Þess vegna grípum við til friðsællar borgaralegrar óhlýðni. Við erum örvæntingarfull.“

Mótmælt er víða um Osló í dag en annars staðar í borginni voru 29 mótmælendur handteknir að sögn norsku lögreglunnar. Mótmælendurnir stöðvuðu umferð á einni helstu umferðaræð Oslóarborgar og neituðu að hlýða lögreglumönnum.

Tina Bru orkumálaráðherra Noregs sagði í yfirlýsingu í dag að hún hefði áhyggjur af loftslagsbreytingum en að mótmælendur beittu nú ólýðræðislegum aðferðum sem myndu ekki leiða til neins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×