Alex Freyr varð 28 ára gamall í gær og spilaði örfáar mínútur í 4-0 sigri KR á Fylki. Hann hefur verið í litlu hlutverki í Vesturbænum í sumar og færir sig niður um deild í leit að leiktíma.
Hann var lykilmaður í liði Víkings Reykjavíkur frá 2016 til 2018 og heillaði KR-inga svo að þeir fengu hann fyrir tímabilið 2019. Alex skoraði þá tvö mörk í sjö leikjum í deild er KR varð Íslandsmeistari en vera hans í Vesturbænum hefur einkennst af meiðslum.
Alex hóf feril sinn hjá Sindra og lék svo fyrir Grindavík fyrir skipti sín til Víkings.
Hann kemur nú til með að styrkja lið Kórdrengja sem er í harðri baráttu um að komast upp í efstu deild. Liðið situr í þriðja sæti Lengjudeildarinnar með 22 stig eftir tólf leiki, fjórum stigum á eftir ÍBV sem er sæti ofar en hefur leikið einum leik meira.
Fyrirhuguðum leik Kórdrengja við Aftureldingu um helgina var frestað vegna kórónuveirusmits í leikmannahópi liðsins.