„Það er verið að skoða notkun hraðprófa í meiri mæli og verður settur sérstakur hópur í það. Það getur vel verið að til lengri tíma verði einmitt meira notað af þeim fyrir fjölmenna viðburði og þess háttar,” segir Alma Möller landlæknir.
Hér á landi eru hraðpróf notuð af heilsugæslunni til að sýna fram á neikvæða niðurstöðu á landamærum Annars staðar í heiminum eru hraðpróf notuð á fjölmennum vinnustöðum og í skólum, svo dæmi séu tekin, og í Frakklandi hafa verið settir upp sérstakir hraðprófsbásar fyrir fólk á leið á næturlífið.
Sömuleiðis er þar gerð krafa um að fólk framvísi neikvæðu prófi áður en það sækir vinsæla ferðamannastaði. Sama var upp á teningnum fyrir fjölmenna tónlistarhátíð í Bretlandi í nýliðinni viku og í Austurríki, Belgíu og Danmörku eru prófin notuð í miklum mæli, svo dæmi séu tekin.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að unnið sé að því að taka prófin í meiri notkun.
„Það er í farvatninu og við erum að tala um að við séum tilbúin að taka við hraðprófum hjá fólki sem er að koma til landsins en ekki bara PCR-prófum þannig að útbreiðslan verður meiri og þetta er eitthvað sem mér finnst að við þurfum að skoða á stórum vinnustöðum og svo framvegis, hvort það sé rétt að taka með reglubundnum hætti hraðpróf,” segir hún.
Aðspurð segir hún þó ekki standa til bjóða upp á svokölluð heimapróf sem fólk geti sjálft keypt í apótekum, en það er hægt víða í Evrópu. „En þetta mun örugglega verða partur af þessari nýju mynd í bólusetningum á Íslandi,“ segir Svandís
Alma tekur undir. „Landspítalinn er að ríða á vaðið og notar hraðpróf við skimun innanhúss þannig að við munum sjá hvernig það kemur út. En við höfum alltaf viljað nota PCR-prófin því þau eru best en kannski til lengri tíma munu hraðprófin koma meira inn.“