Innlent

Á­bati Fjarðarheiðarganga metinn nei­kvæður um 37 milljarða króna

Kristján Már Unnarsson skrifar
Svona var gangamunni Fjarðarheiðarganga hugsaður í Seyðisfirði.
Svona var gangamunni Fjarðarheiðarganga hugsaður í Seyðisfirði. VEGAGERÐIN/MANNVIT

Núvirtur ábati Fjarðarheiðarganga milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar er í greiningu Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri metinn neikvæður upp á 37 milljarða króna. Ábati vegna Fjarðaganga, sem í skýrslunni eru nefnd Mjóafjarðargöng, er metinn neikvæður um 23,5 milljarða króna, það er 13,5 milljörðum króna skárri.

Þegar arðsemi, eða innri vextir, er borin saman koma Fjarðarheiðargöngin út í mínus, eða -0,9 prósent. Mjóafjarðargöngin, sem ríkisstjórnin setti ofar í forgangsröð í gær, koma hins vegar út í örlitlum plús, eða 0,27 prósent.

Vegagerðin leitaði til Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RHA) um að gera félagshagfræðilega greiningu á jarðgangakostum á Austurlandi. Verkefnið fólst í að bera saman arðsemi, umferðaröryggi, tengingu svæða og byggðaþróun vegna jarðganga á Mið-Austurlandi.

Fjarðarheiðargöng myndu tengja Egilsstaði og Seyðisfjörð.Grafík/Sara Rut Fannarsdóttir

Skýrslan er birt sem fylgiskjal með samgönguáætlun en höfundar hennar, þeir Hjalti Jóhannesson og Jón Þorvaldur Heiðarsson, unnu slíka greiningu á 20 jarðgangakostum sem voru til skoðunar hjá Vegagerðinni árið 2022.

Ekki var talin þörf á að greina Fjarðarheiðargöng

„Fjarðarheiðargöng voru ekki metin í þessari skýrslu á sama hátt og samhliða öðrum jarðgangakostum og hafa aldrei verið metin með aðferðafræði félags-hagfræðilegrar greiningar. Ástæðan er sú að litið var svo á að búið væri að ákveða gerð þeirra þegar vinna RHA hófst árið 2022,“ segir í inngangi nýju skýrslunnar, sem dagsett er 24. nóvember síðastliðinn.

„Í ljósi mikillar umræðu um forgangsröðun jarðganga á Mið-Austurlandi var svo ákveðið að beita sömu aðferðafræði á Fjarðarheiðargöng og Mjóafjarðargöng samhliða og fjallar þessi skýrsla um það,“ segir ennfremur.

Bent er á að einn jarðgangakosturinn, Fjarðarheiðargöng, sé búinn að vera fremst í forgangi í opinberum áætlunum stjórnvalda í fimm ár.

Réttmætar væntingar um göngin

„Hafa íbúar á áhrifasvæði ganganna gert sér réttmætar væntingar um að framkvæmdir við göngin hæfust fyrst allra ganga eftir fimm ára langt framkvæmdahlé í jarðgangagerð á Íslandi. Það má búast við neikvæðum áhrifum á andann í samfélaginu í Múlaþingi, einkum á Seyðisfirði, verði hróflað við framkvæmdaröð á jarðgöngum í landshlutanum og að það valdi mögulega neikvæðum áhrifum á samstöðu innan landshlutans.“

Frá Seyðisfirði.Vilhelm

Við samanburð á jarðgangakostnaði ákváðu skýrsluhöfundar að sleppa kostnaði við nýja 3,2 kílómetra langa vegtengingu við Egilsstaði, svokallaða Suðurleið. Þeir telja ekki sanngjarnt að telja hana sem hluta af kostnaði við Fjarðarheiðargöng heldur beri að líta á hana sem sérframkvæmd. Tilgangur tengivegarins við Egilsstaði sé fyrst og fremst að taka vaxandi gegnumstreymisumferð út úr sístækkandi bæ og hann sé ekki skilyrði fyrir því að gera Fjarðarheiðargöng.

6,3 milljarða króna verðmunur á göngunum

Miðað við uppfært kostnaðarmat Vegagerðarinnar til verðlags í september, án nýrrar Egilsstaðatengingar og án virðisaukaskatts, reiknast 13,2 kílómetra löng Fjarðarheiðargöng með nauðsynlegum tengivegum kosta 43,7 milljarða króna. Tvenn Mjóafjarðargöng, 7,0 og 5,4 kílómetra löng, reiknast með tengivegum kosta 37,4 milljarða króna.

Fjarðagöng, nefnd Mjóafjarðargöng í skýrslunni, tengja Seyðisfjörð, Mjóafjörð og Norðfjörð.Grafík/Sara Rut Fannarsdóttir

„Fjarðarheiðargöng leysa með mest afgerandi hætti úr vetrareinangrun Seyðisfjarðar sem hefur verið helsta markmiðið með gangagerð á þessum slóðum,“ segja skýrsluhöfundar.

„Mjóafjarðargöng búa til nýja tengingu suður frá Seyðisfirði til bæjanna í Fjarðabyggð og opna Mjóafjörð með heilsárssamgöngum. Hringtenging verður um svæðið þegar Fjarðarheiði er fær.“

Klettsháls lokast mest

„Fjarðarheiði þyrfti að nota áfram til daglegra samskipta milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða en heiðin er að jafnaði lokuð 11 sólarhringa á ári og með 30 lokunartilvik að meðaltali. Ef fara ætti milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar þá daga sem Fjarðarheiði er lokuð þyrfti að fara leið um Hringveg á Fagradal sem er 53 kílómetrum lengri en ef farið væri um Fjarðarheiðargöng.“

Lokanir á helstu fjallvegum með reglubundinni þjónustu þar sem jarðgöng hafa verið til skoðunar auk Fagradals, á árabilinu 2010-2024.RHA

Birt er samanburðarmynd þar sem lokunarklukkustundir eru umreiknaðar í sólarhringa. Þar kemur fram að á þjóðvegum, þar sem jarðgöng hafa verið til skoðunar, sé aðeins Klettsháls á sunnanverðum Vestfjörðum lengur lokaður. Siglufjarðavegur komi svo á eftir Fjarðarheiði.

Reynisfjall með flest lokunartilvik

Þegar fjöldi lokunartilvika er skoðaður vekur athygli að þau eru mest á Reynisfjalli við Vík í Mýrdal.

„Truflun á umferð er mest á Hringvegi um Reynisfjall, vegna afar mikillar umferðar ferðamanna að vetri þrátt fyrir fremur fáar lokanir og litlu minni truflun er á Hringvegi á Öxnadalsheiði vegna samspils hlutfallslega mikillar umferðar og tíðra lokana.

Fagridalur og Fjarðarheiði eru í 3. og 4. sæti þeirra fjallvega þar sem mest truflun verður á umferð vegna lokunar þegar þetta er skoðað með þessum hætti.“

Meðalfjöldi lokunartilvika á ári 2010-2024 á nokkrum fjallvegum þar sem göng hafa verið til umræðu, auk Fagradals, sett í samhengi við vetrardagsumferð á viðkomandi vegi árið 2020.RHA

Í skýrslunni er rakin alvarleg staða atvinnumála á Seyðisfirði. Eftir aurflóðin árið 2020 hafi komið í ljós að yfir 75 prósent flatarmáls atvinnuhúsnæðis á Seyðisfirði var á mesta hættusvæði vegna ofanflóða og talið að kostnaður við ofanflóðavarnir yrði oft á tíðum dýrari en fasteignirnar sem verja ætti.

Síldarvinnslan hafi árið 2023 ákveðið að loka bolfiskvinnslu sinni á Seyðisfirði og síðan ákveðið að hætta útgerð togarans Gullvers árið 2026. Í síðasta mánuði hafi fyrirtækið svo tilkynnt um lokun fiskimjölsverksmiðju sinnar. Á áttunda tug starfa hafi horfið úr bænum á undanförnum árum.

Togarinn Gullver í höfn á Seyðisfirði.Síldarvinnslan

Við uppbyggingu atvinnulífs sé horft til fiskeldis í firðinum en ekki sé eining meðal íbúa um þær áætlanir og félagasamtök hafi verið stofnuð til að berjast gegn veitingu leyfa til þess reksturs.

Atvinnulíf Fjarðabyggðar yrði aðgengilegra Seyðfirðingum

Með Mjóafjarðargöngum verði fjölbreytt atvinnulíf í Fjarðabyggð aðgengilegt fyrir Seyðfirðinga, svo og ýmis þjónusta. Ný leið skapist milli Norðfjarðar og Egilsstaða um Mjóafjarðargöng og Fjarðarheiði. Seyðisfjörður og Norðfjörður yrðu ekki lengur endastöðvar með sama hætti og nú.

Betri tækifæri gefist til atvinnusóknar til álversins í Reyðarfirði. Um 800 manns vinni á svæðinu. Álverið sé langstærsti vinnustaður á Austurlandi og helsti segull fyrir vinnusókn víða að af Austurlandi.

Álver Alcoa í Reyðarfirði. Fleiri fyrirtæki hafa einnig starfsemi við Mjóeyrarhöfn.Vísir/Arnar

„Búast má við að margir Seyðfirðingar muni sækja sér vinnu í álverið og í önnur fyrirtæki í Fjarðabyggð þar sem að vegalengdin milli staðanna styttist afar mikið vegna ganganna og verða til dæmis um 36 kílómetrar á láglendi að álverinu frá Seyðisfirði sem er vel innan daglegrar vinnusóknarfjarlægðar samkvæmt almennum viðmiðum.“

Áfram yrði að nota Fjarðarheiði vegna daglegra ferða milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða. Þá daga sem heiðin er lokuð þyrfti að fara mun lengri leið milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða um Fjarðabyggð og hringveg um Fagradal. Að nota Fjarðarheiði áfram til daglegra samskipta milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða væri ekki í anda þess að afnema vetrareinangrun með afgerandi hætti, segja höfundar skýrslunnar.

Mjóifjörður tæki stakkaskiptum

Mjóifjörður yrði skyndilega í alfaraleið og mun vænlegri til búsetu. Vegurinn um Mjóafjarðarheiði sé almennt lokaður frá því að vetur leggst að og fram á vormánuði. Á tímabilinu 2010-2024 hafi vegurinn verið að jafnaði lokaður í 161 sólarhring eða um 44% ársins.

Séð yfir byggðina í Mjóafirði.Einar Árnason

„Hér er því um mjög mikla vetrareinangrun að ræða og munu göngin aflétta henni þannig að fyrir íbúa Mjóafjarðar verður um sannkallaða byltingu á tengingu svæða að ræða,“ segir í skýrslu RHA.

Forsendur til búsetu í Mjóafirði taka stakkaskiptum og verður fjörðurinn samgöngulega miðsvæðis á Austurlandi í stað þess að vera einangruð byggð. Í Mjóafirði verður því um byltingu í búsetuskilyrðum að ræða.“

Segir að sumarhúsabyggð eða beinlínis heilsársbyggð gæti komið til í botni Mjóafjarðar þegar göng yrðu þar til beggja handa.

Norðfjörður og Seyðisfjörður ekki lengur endastöðvar

„Líklegt er að áhrif af Mjóafjarðargöngum yrðu mjög jákvæð með hliðsjón af fyrirliggjandi markmiðum á sviði byggðaþróunar og göngin myndu skapa nýja láglendisleið milli austfirsku fjarðanna.“

Bæði Norðfjörður og Seyðisfjörður breytast úr því að verða endastöðvar í samgöngulegum skilningi yfir í það að verða hnútpunktar á nýrri hringleið um Austurland. Ferjuhöfnin á Seyðisfirði verði aðgengileg um og frá Fjarðabyggð.

Húsnæðismarkaður verði meira samþættur á svæðinu sem gerir aðgengi að húsnæði betra og húsnæðisverð jafnara milli staða. Bættar tengingar muni hafa jákvæð áhrif á félagslíf og tómstundastarf og geta aukið fjölbreytni og virkni á því sviði. Lífsgæði og búsetufrelsi muni aukast við aukin tækifæri til samskipta.

Séð yfir Neskaupstað.Einar Árnason

Aðgengi að Sjúkrahúsinu í Neskaupstað muni verða mjög gott frá Seyðisfirði og staðsetning þess verði allgóð miðað við samgöngukerfi landshlutans. Með því að þjónustusvæði sjúkrahússins stækki ættu að skapast betri forsendur fyrir meiri sérhæfingu í aðgerðum og meðferð sjúklinga. Sem vinnustaður verði sjúkrahúsið einnig betur staðsett og mönnun verði auðveldari ef starfsmenn þess geta staðsett sig og fjölskyldur sínar á stærra vinnusvæði út frá sjúkrahúsinu en nú er. Þá verði Norðfjarðarflugvöllur aðgengilegur fyrir Seyðisfjörð vegna sjúkraflugs.

Forsendur skapist til að styrkja og samþætta almenningssamgöngukerfi við að tengja saman alla firðina. Ferja milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar leggist af og sparist því sá rekstur. Tenging við innanlandsflug á Egilsstöðum verði um Fjarðarheiði áfram eða lengri leið um Fjarðabyggð og Fagradal þegar heiðin er lokuð.

Frá snjóruðningi á Fjarðarheiði.skjáskot/Stöð 2

„Þar sem vegurinn um Fjarðarheiði verður áfram hluti af vegakerfinu miðað við þessa sviðsmynd mun framkvæmdin ekki stuðla að því markmiði samgönguáætlunar að efla hlut kvenna í samgöngum,“ segir í skýrslunni og er það skýrt með því að kannanir bendi til þess þess að þegar aðstæður þykja viðsjárverðar á vegum, sérstaklega að vetrarlagi, dragi meira úr hreyfanleika kvenna.

Styttri framkvæmdatími

Skýrsluhöfundar benda á að hægt sé að skipuleggja gerð Mjóafjarðarganga þannig að framkvæmdatími verði styttri eða líklega rúmlega fjögur ár með því grafa lengri göngin stöðugt frá báðum endum. Styttri göngin taki skemmri tíma. Vegna samgönguleysis sé þó líklegra að lengri göngin verði grafin eitthvað árstíðarbundið frá Mjóafirði en allt árið frá Norðfirði.

Ef göngin væru eingöngu grafin frá tveimur stöfnum, Norðfirði og Seyðisfirði, yrði framkvæmdatíminn líklega rúmlega 7 ár.

Miklar styttingar vegalengda verði með göngunum, segir í skýrslunni. Mesta styttingin sé á milli Neskaupstaðar og Seyðisfjarðar 64 kílómetrar. Milli Neskaupstaðar og Egilsstaða styttist vegalengdin um rúmlega 17 kílómetra.


Tengdar fréttir

Segir göng undir Fjarðarheiði ekki fjárhagslega forsvaranleg

Ríkisstjórnin er einhuga um að breyta forgangsröðun jarðganga og setja Fljótagöng í fyrsta sæti og hafa þingflokkar stjórnarinnar samþykkt tillöguna. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að Fjarðarheiðargöng hafi ekki verið fjárhagslega forsvaranleg.

Fljótagöng sett í forgang

Fljótagöng, Fjarðagöng, Súðavíkurgöng og Miklidalur og Hálfdán verða sett í forgang í nýrri jarðgangaáætlun sem kynnt verður í dag á fundi innviðaráðherra þar sem hann kynnir samgönguáætlun fyrir 2026 til 2040. Undirbúningur við næstu jarðgöng hefst 2026 og verður byrjað að bora 2027.

Sakar ráðherra um svik og kjör­dæma­pot í sam­gönguáætlun

Jónína Brynjólfsdóttir, formaður heimastjórnar Seyðisfjarðar, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og varaþingmaður Framsóknarflokksins, sakar Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra um kjördæmapot. Hún segir hann hafa fært Fljótagöng efst á framkvæmdalista samgönguáætlunar í stað Fjarðarheiðagangna. Hún segir engin rök fyrir slíkri breytingu á samgönguáætlun og kallar eftir svörum frá ráðherra. Ráðherra hefur áður sagt að hann sé ekki bundinn af áætlunum fyrri ríkisstjórnar.

Segir alþingismenn hafa verið blekkta við val næstu jarðganga

Svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi til fjörutíu ára segir enga sátt ríkja í fjórðungnum um gerð Fjarðarheiðarganga og telur að alþingismenn hafi verið blekktir til að setja þau í forgang. Talsmaður Seyðfirðinga segir málið hins vegar útrætt og niðurstaða liggi fyrir um að þau verði næstu jarðgöng á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×