„Þetta þýðir það að það verður erfitt fyrir okkur að halda þjóðhátíð hérna um næstu helgi. Allt þjóðhátíðarsvæðið komið upp og þetta eru náttúrulega gríðarleg vonbrigði,“ sagði Hörður Orri Grettisson, formaður þjóðhátíðarnefndar, í beinni útsendingu í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Vísir hefur ekki náð tali af Herði í kvöld.
„Eftir þennan maraþonfund var maður að vonast til að það kæmi eitthvað annað upp úr hattinum en boð og bönn. Menn væru búnir að skoða hlutina nánar, til dæmis að hleypa fólki inn á stærri viðburði með Covid-testum eða etthvað slíkt, en það er bara áfram verið í sama farinu. Boð og bönn. Sem er ekki gott.“
Vitað hefði verið í hvað stefndi. Þá væri „klárlega einn möguleikinn“ að fresta hátíðinni um daga eða vikur. Búnaður væri kominn upp og hátíðarsvæðið tilbúið.
Frá og með miðnætti á morgun verða samkomutakmarkanir miðaðar við 200 manns og fjarlægðarmörk einn metri. Nánari útlistun á aðgerðunum, sem gilda eiga í þrjár vikur, má nálgast hér.