Í samtali við fréttastofu segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, að erfitt sé að segja nákvæmlega til um hvað sé á seyði við gosstöðvarnar þessa stundina vegna lélegs skyggnis. Mikil þoka er á svæðinu, líkt og myndir úr vefmyndavél Vísis á Fagradalsfjalli bera vitni um, þegar þetta er skrifað.
Þrátt fyrir það segir Lovísa að mælingar Veðurstofunnar bendi til töluverðrar virkni á svæðinu.
„Rétt fyrir miðnætti, aðfaranótt 10. júlí, byrjar óróinn að hækka. Þá fórum við að sjá virkni í gígnum sjálfum, bæði strókvirkni og gutl úr gígnum“ segir Lovísa.
Virknin náði hámarki um klukkan níu að morgni 10. júlí. Síðan þá hefur hún aðeins lækkað en haldist nokkuð stöðug eftir það. Nú virðist þó vera lengra á milli „toppa,“ það er að segja, þegar virknin nær hámarki.