Erlent

Forsetinn íhugar alvarlega að bjóða sig fram til varaforseta

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Með því að gegna áfram opinberu embætti getur Duterte tryggt að pólitískir andstæðingar freisti þess ekki að fá hann dæmdan í fangelsi fyrir einhverjar sakir. Að minnsta kosti í bili.
Með því að gegna áfram opinberu embætti getur Duterte tryggt að pólitískir andstæðingar freisti þess ekki að fá hann dæmdan í fangelsi fyrir einhverjar sakir. Að minnsta kosti í bili. epa/Francis. R. Malasig

Forseti Filippseyja segist vera að íhuga það alvarlega að bjóða sig fram til varaforseta. Ástæðan er sú að lögum samkvæmt getur hann ekki sóst eftir endurkjöri en hann segist enn eiga ýmsu ólokið.

Rodrigo Duterte, sem er 76 ára, sagðist á fundi með pólitískum samherjum sínum í gær að hann væri djúpt snortin vegna allra þeirra áskorana sem honum hefðu borist um að bjóða sig fram til varaforseta.

Sagðist Duterte nú íhuga það alvarlega en hann hafði áður sagt það góða hugmynd, þar sem hann ætti eftir að ljúka ýmsum verkum, til dæmis baráttunni gegn ólöglegum fíkniefnum.

Forsetinn er orðinn alræmdur fyrir afar gróf ummæli og aðferðir en hann hefur meðal annars sagst hafa myrt mann og annan, haft í hótunum við blaðamenn og kallað aðra leiðtoga „hórusyni“.

Duterte nýtur mikilla vinsælda heima fyrir og íbúar landsins virðast almennt ánægðir með forsetann. Andstæðingar hans segja það hins vegar orka tvímælis að hann verði varaforseti, þar sem hann myndi verða forseti ef forsetinn félli frá.

Duterte hefur sjálfur viðurkennt að hann yrði „gagnslaus“ varaforseti ef forsetinn, sem er kjörinn í aðskildri kosningu, yrði ekki „vinveittur“.

Dóttir Duterte, Sara Duterte-Carpio, hefur verið efst á lista yfir mögulega forsetaframbjóðendur en feðginin hafa bæði neitað því að hún sækist eftir embættinu. Duterte-Carpio er nú borgarstjóri Davao, líkt og faðir hennar forðum.

Duterte hefur sagt að Christopher „Bong“ Go, einn helsti ráðgjafi forsetans, sé hæfur til að gegna forsetaembættinu en Go, sem er þingmaður, segist ekki hafa áhuga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×