Daniella Levine Lava, borgarstjóri Miami-Dade, tilkynnti í dag að nú hafi 20 fundist látnir og enn teljast 128 týndir í rústunum. Borgarstjóri Miami, Francis Suarez, staðfesti að barnið, hvers nafn hefur ekki verið tilkynnt, sé dóttir slökkviliðsmanns í borginni.
Slökkvilið borgarinnar hefur tekið þátt í leitinni síðan blokkin hrundi. Samkvæmt frétt AP hefur faðir stúlkunnar leitað linnulaust í rústunum að dóttur sinni og öðrum sem enn eru týndir.
Stúlkan er ekki eina barnið sem fórst í blokkinni en systurnar Emma Guara, fjögurra ára, og Lucia, tíu ára, fundust látnar í rústunum ásamt foreldrum sínum Marcus og Anaely fyrr í þessari viku.
Fjöldi þeirra sem enn eru týndir í rústunum lækkaði í dag eftir að farið var aftur yfir lista týndra. Í gær var talið að 145 væru enn í rústunum en sú tala lækkaði niður í 128 eftir að í ljós kom að einhver nöfn voru merkt tvisvar inn á listann og staðfest var að einhverjir íbúar hefðu ekki verið heima þegar blokkin hrundi. Nú er því staðfest að 188 íbúar blokkarinnar eru á lífi.