Auglýst var eftir nýjum rekstraraðilum fyrir veitingarýmið á síðasta ári og náðu stjórnendur Hörpu samkomulagi við þau Stefán og Fanneyju.
Í tilkynningu segir að Stefán hafi rekið matstofu Marel Bistro Blue undanfarin ár með Fanneyju Dóru sér við hlið. Áður starfaði Fanney Dóra sem yfirkokkur á Skál! sem hlaut viðurkenninguna Bib Gourmand Michelin guide. Hún var í íslenska kokkalandsliðinu í nokkur ár og er stjórnarmaður og varaforseti Klúbbs matreiðslumanna frá árinu 2018.
Framkvæmdastjóri Hnoss er Þórunn Björg Marinósdóttir.
„Hugmyndafræðin á bak við Hnoss er að skapa vettvang fyrir matarmenningu sem slær í takt við Hörpu. Mikil áhersla verður lögð á ferskt hráefni og gæði en markmiðið er að opna svæðið og gera það aðgengilegt fyrir gesti Hörpu og fyrir matargesti. Áform eru um að nýta vel útisvæðið á jarðhæðinni og tengja þannig veitingastaðinn við menninguna við höfnina og nærliggjandi svæði. Fyrirhugað er að opna svalirnar meðfram Hörpu og skapa lifandi svæði þar sem verður lögð áhersla á hraða þjónustu,“ segir í tilkynningunni.

Grænmetismiðaðir réttir
Haft er eftir Fanneyju Dóru að þau hlakki til að útbúa mat þar sem bragð, áferð og upplifun spili stóran sess í gegnum grænmetismiðaða rétti í bland við hágæða íslenskan fisk og kjöt.
„Á kvöldin munum við bjóða upp á a la carte matseðil og fjölbreyttan vínseðil við hæfi. Markmiðið er að tengja Hnoss við viðburði hússins þar sem gestir geta kíkt í mat fyrir sýningu, en einnig í drykk og nasl eftir sýningu. Von okkar er að fólk vilji koma og upplifa hvort sem það er að degi til eða á kvöldin einnig ætlum við að leggja mikið upp úr dögurðarhlaðborði um helgar, það verður algjört hnossgæti,“ er haft eftir Fanneyju.