Afar fjölmennt var á skemmtistöðum borgarinnar um helgina, nú þegar öllum samkomutakmörkunum hefur verið aflétt. Langar leigubílaraðir myndast jafnan við lokun skemmtistaðanna og kallaði Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, eftir því í dag að skemmtistöðum verði gefinn frjáls opnunartími til að forðast hópamyndanir. Dagur B. Eggertsson er því ósammála, enda hafi það verið reynt áður.
„Það var alveg frjálst um tíma en hliðarverkanirnar af því voru að það var erfitt fyrir hreinsunartæki að komast að til að gera hreint eftir nóttina. Og þeir sem voru á leiðinni heim af djamminu blönduðust í hóp foreldra sem voru að gefa öndunum brauð með börnunum sínum.“
Þá hafi verið hugmyndir um að færa næturlífið á fáfarnari staði, en að þá komi upp áhyggjur um öryggi fólks. Eðlilegt sé þó að taka samtalið.
„En eðli málsins samkvæmt að þá er alltaf eðlilegt að þetta samtal sé í gangi því að galdurinn við góða borg er að hafa fjölbreytnina. Við höfum aldrei vikið okkur undan því að ræða þessi mál.”