Handbolti

Átta mörk Ómars Inga dugðu ekki til, Bjarki Már skoraði sjö og Ýmir Örn sá rautt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ýmir Örn og félagar unnu öruggan sigur í kvöld.
Ýmir Örn og félagar unnu öruggan sigur í kvöld. Löwen

Ýmir Örn Gíslason var eini Íslendingurinn sem hrósaði sigri í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Hann sá hins vegar rautt í öruggum tíu marka sigri Rhein-Neckar Löwen á Essen.

Löwen vann þægilegan 33-23 sigur á Essen á útivelli. Ýmir Örn var ekki meðal markaskorara Ljónanna en sá rautt spjald er ein mínúta lifði leiks. Það kom þó ekki að sök.

Lokatölurnar voru þær sömu, 33-23, er Kiel vann þægilegan tíu marka sigur á Lemgo. Bjarki Már Elísson skoraði sjö mörk í liði Lemgo en það dugði ekki til gegn ógnarsterku liði Kiel.

Að lokum skoraði Ómar Ingi Magnússon átta mörk er Magdeburg gerði óvænt jafntefli við Wetzlar á heimavelli, lokatölur 28-28.

Magdeburg er öruggt með 3. sæti deildarinnar þegar ein umferð er eftir með 53 stig. Löwen er í 5. sæti en gæti náð 4. sætinu ef úrslit eru hagstæð í lokaumferð deildarinnar. Lemgo situr í 9. sæti en gæti stokkið alla leið upp í 7. sæti með góðum úrslitum í lokaumferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×