Meðal þeirra sem NSA njósnaði um voru kanslari Þýskalands, Angela Merkel, og forseti landsins Frank-Walter Steinmeier en hann var utanríkisráðherra þegar njósnirnar fóru fram. Einnig var njósnað um Peer Steinbrück sem var á þessum tíma kanslaraefni þýska flokksins SPD.
Njósnir NSA komust fyrst upp árið 2013 en nú fyrst hefur verið greint frá þætti dönsku leyniþjónustunnar í málinu. Heimildarmenn innan dönsku leyniþjónustunnar láku upplýsingunum til fjölmiðla.
Frétt frá 2013:
Vissu af öllum símasamskiptum
Njósnunum var þá ekki aðeins beint að þýskum stjórnmálamönnum heldur einnig norskum, sænskum og frönskum ráðamönnum.
Samkvæmt skýrslunni fóru njósnirnar fram í gegn um samskiptakerfi Danmerkur. Þannig gátu danska leyniþjónustan og NSA nálgast bæði símtöl og SMS sem fóru í gegn um dönsk kerfi.
Danski ríkismiðillinn segir að enn hafi ekki tekist að fá svör um hversu marga NSA njósnaði um nákvæmlega með þessum hætti. Samkvæmt heimildarmanni miðilsins voru það þó stjórnmálamenn sem leyniþjónustur hefðu „almennt áhuga á“, til dæmis forsætis- og utanríkisráðherrar.
Forseti Þýskalands, Steinmeier, hefur kallað málið hneyksli og gagnrýnt það að Danir hafi njósnað um grannríki sín. Angela Merkel hefur enn ekki tjáð sig um málið en talsmaður ríkisstjórnarinnar segir að hún hafi verið upplýst um það.
Samkvæmt frétt danska miðilsins hefur ríkisstjórn Danmerkur haft vitneskju um samstarf leyniþjónustunnar við Bandaríkjamenn að minnsta kosti frá því að skýrslan var gerð árið 2015. Dönsk yfirvöld neyddu þá alla yfirmenn leyniþjónustunnar til að láta af störfum í fyrra vegna málsins.