Sýkingum fækkaði um 80% aðeins fimm vikum eftir að þátttakendur fengu fyrstu sprautu af Pfizer, Moderna og AstraZeneca þar í landi.
Dauðsföllum fækkaði um 95% og sjúkrahúsinnlögnum um 90%, sem allt er talið til marks um raunveruleg áhrif bóluefnaherferðar stjórnvalda.
Um er að ræða rannsókn á vegum ítalskra heilbrigðisyfirvalda og er þetta því fyrsta opinbera rannsóknin frá ríki innan Evrópusambandsins um þetta efni. Reuters greinir frá niðurstöðunum.
95% þeirra 14 milljóna sem tóku þátt í rannsókninni höfðu einnig fengið seinni skammtinn þegar rannsóknin var framkvæmd, enda er seinni Pfizer-skammturinn gefinn eftir þrjár vikur og Moderna eftir fjórar.
Enginn af AstraZeneca-þátttakendunum hafði þó fengið seinni skammt, enda sá gefinn 12 vikum eftir fyrri sprautu.