Ekkert liggur fyrir um orsök reyksins að svo stöddu en slökkviliðsmenn voru enn að þræða stíga upp úr klukkan sjö til að reyna að komast að upptökum reyksins. Ekki er talið að um neitt stórvægilegt sé um að ræða.

Sigurður Marcus Guðmundsson varð fyrst var við reykinn um klukkan 17:48 og náði meðfylgjandi myndum úr Áslandi í Hafnarfirði.
Uppfært klukkan 20:27: Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er kviknað í mosa í hraunkantinum milli Helgafells og Búrfellsgjár. Talið er að eldurinn nái yfir um 300 fermetra svæði og hefur verið óskað eftir því að þyrla Landhelgisgæslunnar verði kölluð út til að aðstoða við slökkvistörf.
„Það er svo erfitt þegar þetta fer í mosann, það getur farið djúpt og það er erfitt að eiga við hann. Þannig að það gæti orðið bras að eiga við þetta,“ segir Bjarni Ingimarsson, aðstoðarvarðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Uppfært klukkan 21:50: Þyrla Landhelgisgæslunnar er komin á vettvang og er áhöfn hennar byrjuð að kasta vatni yfir glæðurnar.