Fram kemur í tilkynningu á heimasíðu skólans að nemandinn hafi mætt í skólann klukkan átta og um 50 mínútum síðar hafi forráðamaður haft samband við skólann með þær upplýsingar að nemandinn hafi greinst með Covid-19. Nemandinn hafi þá verið sendur umsvifalaust heim.
Eru því nú fimmtán nemendur og starfsmenn skólans í sóttkví og segir í tilkynningunni að aðrir eigi ekki að fara í sóttkví nema að höfðu samráði við smitrakningateymi Almannavarna.
Fram kemur að vegna atviksins muni skerðing verða á skólastarfi hjá nemendum á miðstigi og efsta stigi skólans. Skólabyggingar verði sótthreinsaðar áður en skóli hefjist að nýju í fyrramálið og ítrekað er að nemendur og starfsfólk megi ekki fara á milli þeirra fimm sóttvarnahólfa sem séu í skólanum.