Jarðarförin sjálf hófst klukkan tvö í dag, að íslenskum tíma, í kapellu St. Georgs við Windsorkastala.
Þar áður, um klukkan 13:40 hófst líkfylgdin. Kistan var borin frá kapellu í kastalanum sjálfum til kapellu St. Georgs og var kistan flutt á sérstökum Land Rover sem prinsinn kominn sjálfur að því að hanna.
Kistunni fylgdu fjögur börn Filippusar og Elísabetar, þau Karl, Andrés, Játvarður og Anna en með þeim voru þeir Vilhjálmur og Harry, synir Karls. Þar á eftir koma aðrir eins og Pétur, sonur Önnu, og eiginmaður hennar, aðmírállinn Tim Laurence.
Starfsmenn Filippusar gengu svo þar á eftir.
Viðstaddir jarðarförina voru að mestu úr fjölskyldu þeirra hjóna en þar að auki voru þrír ættingjar Filippusar frá Þýskalandi. Þó komu rúmlega 700 meðlimir herafla Bretlands að athöfninni.
Sjá einnig: Drottningin situr ein við útförina
Athöfninni var sjónvarpað í beinni útsendingu en hægt var að fylgjast með beinni útsendingu BBC hér á Youtube og Youtubesíðu bresku konungsfjölskyldunnar.
Í frétt BBC segir að prinsinn hafi sjálfur beðið um að jarðarförin yrði lágstemmd og að ekki yrði haldin messa. Konungsfjölskyldan hefur gefið út að athöfnin verði táknræn fyrir Filippus, hugrekki hans og stuðning hans við drottninguna.
Athöfnin mun einnig sýna tengsl Filippusar við herafla Bretlands.
Filippus dó þann 9. apríl, og var hann 99 ára gamall en hann hefði orðið hundrað ára í júní. Hann og Elísabet höfðu verið gift í 73 ár lengur en nokkur annar maki drottningar eða konungs Bretlands.
Fréttin hefur verið uppfærð.