Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var á vef Stjórnarráðsins í dag. Þar segir að breytingin, sem öðlast þegar gildi, sé gerð til samræmis við sambærilegar breytingar á læknanámi erlendis í því skyni að greiða aðgengi lækna að sérnámi.
Norðmenn innleiddu fyrirkomulagið nýverið og mun Svíþjóð fylgja því fordæmi í júlí næstkomandi að því er fram kemur í tilkynningu.
Fyrirkomulagið skapaði vanda fyrir íslenska nema
Með sambærilegum breytingum erlendis skapaði fyrra fyrirkomulag hér á landi vanda fyrir nemendur sem höfðu lokið læknisfræði í Háskóla Íslands og kandídatsári, þar sem kandídatsárið var ekki viðurkennt sem liður í sérnámi þeirra.
Nú munu þeir sem hyggja á sérnám hefja það með sérnámsgrunni sem felur í sér tólf mánaða starfsþjálfun.
Bráðabirgðaákvæði reglugerðarinnar er ætlað að brúa bilið milli eldra fyrirkomulags og þess nýja, þannig að þeir nemar sem nú eru á kandídatsári geta nú sótt um lækningaleyfi.