Á vef breska ríkisútvarpsins BBC segir að umræddar refsiaðgerðir gætu komið til framkvæmda bráðlega, jafnvel strax í dag. Í aðgerðunum felst brottrekstur að minnsta kosti tíu rússneskra erindreka.
Refsiaðgerðirnar verða líka viðskiptalegs eðlis en gert er ráð fyrir að Bandaríkjaforseti muni undirrita forsetatilskipun sem bannar bandarískum fjármálastofnunum að kaupa skuldabréf í rúblum frá og með júní næstkomandi.
Þessar vendingar eru til marks um versnandi samskipti þjóðanna tveggja. Á símafundi þjóðarleiðtoganna á þriðjudag kom Biden Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, í skilning um að hann myndi beita hörku til að verja þjóðarhag.
Biden stakk þá einnig upp á því að þeir myndu hittast á fundi sem hvorki myndi fara fram í Bandaríkjunum né Rússlandi til að reyna að finna leiðir til sátta.