Lögregla þurfti að hafa afskipti af fleiri ökumönnum í gærkvöldi og í nótt, en átta ökumenn voru stöðvaðir víðs vegar um borgina undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Þá gistu níu fangaklefa vegna ýmissa brota og ellefu tilkynningar bárust um hávaða.
Lögregla var kölluð til vegna tveggja manna í verslun í Efra-Breiðholti, en þeir voru í annarlegu ástandi og neituðu að nota andlitsgrímur, að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Málið var þó leyst á staðnum þegar lögregla kom á vettvang og þeir sagðir hafa lofað bót og betrun.
Fjórir voru handteknir vegna líkamsárása í gær, þrír í Breiðholti og einn í Mosfellsbæ, en sá er einnig grunaður um húsbrot. Þá var brotist inn í fyrirtæki í Garðabæ, en ekki liggur fyrir hverju var stolið að svo stöddu.