Innlent

Ó­vissu­stigi vegna snjó­flóða­hættu lýst yfir

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Víða er talin hætta á snjóflóðum á Norðurlandi. óvissustigi vegna snjóflóðahættu hefur verið lýst yfir á Siglufjarðarvegi.
Víða er talin hætta á snjóflóðum á Norðurlandi. óvissustigi vegna snjóflóðahættu hefur verið lýst yfir á Siglufjarðarvegi. Vísir/Vilhelm

Óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Siglufjarðarvegi hefur verið lýst yfir. Þá hefur verið varað við snjóflóðahættu á Ólafsfjarðarmúla, Flateyrarvegi og Súðavíkurhlíð. Þetta kemur fram á Twittersíðu Vegagerðarinnar.

Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi á Suðurlandi, Suðausturlandi, Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu og Vestfjörðum. Þá er gul veðurviðvörun í gildi á Ströndum og norðurlandi vestra, miðhálendingu og Austfjörðum.

Víða eru vegir lokaðir, þar á meðal á Suðurlandi og Vestfjörðum. Einnig er ófært víða um Norðaustur- og Austurland vegna snjókomu.

Suðurlandsvegur frá Hvolsvelli að Markarfljóti hefur verið opnaður að nýju en hann hefur verið lokaður frá því um klukkan sex síðdegis. Enn er slæmt veður á svæðinu með miklum vindhviðum og á veginum er bæði hálka og snjór skafinn í skafla. Þjóðvegurinn verður áfram lokaður frá Markarfljóti að Vík í Mýrdal til morguns.

Þá er hættustig í gildi vegna gasmengunar sökum eldgossins í Geldingadal. Mikil brennisteinsmengun er á svæðinu og hefur það verið lokað frá því klukkan 17 í dag. Það var einkum gert vegna veðurs og segja lögreglumenn og björgunarsveitarmenn í samtali við Vísi að vel hafi tekist að rýma svæðið. Enn hafa engin útköll borist vegna mannaferða á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×