Innlent

Appel­sínu­gular við­varanir vegna hvass­viðris og hríðar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Höfuðborgarsvæðið og Austfirðir virðast sleppa við veðurviðvaranir eins og er.
Höfuðborgarsvæðið og Austfirðir virðast sleppa við veðurviðvaranir eins og er. Veðurstofa Íslands

Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugular viðvaranir fyrir Suðurland og Suðausturland vegna austan storms og hríðar.

Á Suðurlandi tekur viðvörunin gildi klukkan 16 á morgun, laugardag og gildir til klukkan 23 annað kvöld.

„Austan 20-28 m/s með mjög snörpum vindhviðum við fjöll, hvassast austantil á svæðinu. Einnig má búast við snjókomu eða slyddu og skafrenningi með lélegu skyggni og hættulegum akstursskilyrðum. Ekkert ferðaveður,“ segir á viðvörunarvef Veðurstofunnar.

Klukkan tólf á eftir tekur svo gildi gul viðvörun á Suðausturlandi vegna norðanstorms og gildir hún til 22 í kvöld.

Á morgun klukkan 18 tekur svo appelsínugul viðvörun gildi á Suðausturlandi og gildir hún til miðnættis annað kvöld.

„Austan og norðaustan 20-28 m/s með mjög snörpum vindhviðum við fjöll, hvassast vestan Öræfa. Einnig má búast við snjókomu eða slyddu og skafrenningi með lélegu skyggni og hættulegum akstursskilyrðum. Ekkert ferðaveður,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Þá eru gular viðvaranir í gildi víða um land núna, til að mynda á Austurlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi eystra.

Klukkan 18 á morgun tekur síðan gul viðvörun gildi við Faxaflóa og er í gildi til eitt aðfaranótt sunnudags.

Gul viðvörun er við Breiðafjörð frá því klukkan 19 annað kvöld og fram til klukkan sex á sunnudagsmorgun. Á sama tíma tekur gul viðvörun gildi á Vestfjörðum en gildir aðeins lengur eða til klukkan níu á sunnudagsmorgun.

Nánar má lesa um viðvaranir helgarinnar á vef Veðurstofu Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×