Í Norður-Kóreu hafa ráðmenn krafist þess að viðskiptaþvinganir og refsiaðgerðir verði felldar niður áður en einræðisríkið tekur skref í átt þess að losa sig við kjarnorkuvopn sín. Í Bandaríkjunum hefur viðhorfið verið að það komi ekki til greina. Fyrst verði Kóreumenn að taka sín fyrstu skref í átt að afvopnun.
Í yfirlýsingu frá Choe Son Hui, aðstoðarutanríkisráðherra Norður-Kóreu, sagði í yfirlýsingu að Bandaríkjamenn hefðu sent tölvupósta og skilaboð í síma en þeim hefði ekki verið safnað. Hún sagði að um „ódýra brellu“ væri að ræða.
Afstaða Norður-Kóreu væri ljós og viðræður tilefnislausar.
„Það eina sem við höfum heyrt frá nýrri ríkisstjórn Bandaríkjanna eru bilaðar kenningar um ógn frá Norður-Kóreu og grunnlaus áróður um algera afvopnun,“ segir hún samkvæmt frétt Reuters.
Sjá einnig: Systir Kim segir Biden að valda ekki vandræðum
Choe gagnrýndi einnig Bandaríkin og Suður-Kóreu fyrir heræfingar ríkjanna á Kóreuskaganum.
Viðræður milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu um kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlun einræðisríkisins strönduðu árið 2019, eftir nokkra fundi einræðisherrans Kim Jong Un og Donalds Trump, þáverandi forseta Bandaríkjanna.