Fundur hófst klukkan fimm í dag og lauk um klukkan hálf átta í kvöld. Í framhaldinu tók svo við fundur milli skólastjórnenda og skóla- og frístundaráðs. Samkvæmt upplýsingum frá foreldrum á fundinum voru þeir foreldrar sem sóttu fundinn afdráttarlausir með þá kröfu sína að rýma þyrfti skólann.
Búist er við frekari upplýsingum í kvöld, en að sögn foreldra var tekið tillit til þeirra afstöðu. Foreldrar sem fréttastofa ræddi við í dag töldu nægjanleg rök komin fram fyrir því að loka þyrfti skólanum þar sem myglan væri bersýnilega heilsuspillandi. Dæmi væru um að börn séu keyrð og sótt í skóla þar sem þau hafi ekki orku til að ganga heim.
„Við höfum ítrekað bent á að börnin verði að fá að njóta vafans þegar kemur að heilsufari,“ sagði Björn Steinbekk, foreldri barns í Fossvogsskóla. Hann segir umræðuna hafa leitt til ákveðinnar vitundarvakningar meðal foreldra, sem nú séu farnir að taka eftir einkennum sem megi mögulega rekja til myglunnar.

Óstöðvandi blóðnasir og taugaverkir
„Sonur minn er búinn að vera í heimanámi núna í tvær vikur og er allur annar eftir það,“ sagði móðir drengs í 5. bekk í Fossvogsskóla, en hann byrjaði að finna fyrir einkennum strax í fyrsta bekk. Undanfarin ár hafi því litast af læknisheimsóknum og jafnvel á bráðamóttöku.
„Óstöðvandi blóðnasir, magaverkir, höfuðverkir, taugaverkir í fótum, sýkingar í augum, ofnæmisviðbrögð.“
Hún segir son sinn hafa tekið ákvörðun um að hætta að mæta í skólann.
„Hann sagði bara einn daginn við mig: Mamma mér líður svo illa í skólanum. Af hverju á ég að vera þarna þegar mér líður svona illa. Hann fer ekki aftur inn, ekki á meðan ástandið er svona.“
Ekki áhættunnar virði
Í undirskriftasöfnun foreldranna er skorað á borgarstjóra, borgarfulltrúa, stjórnendur skóla- og frístundaráðs og stjórnendur Fossvogsskóla að grípa til aðgerða og setja heilsu barna og starfsfólks í forgang. Ástand skólans skerði lífsgæði bæði barna og starfsfólks og stofni heilsu þeirra í hættu, mögulega með varanlegum afleiðingum.
„Undanfarið hafa börn veikst af völdum myglumengunar í skólanum og valda veikindin þeim mikilli vanlíðan. Mörg börn geta ekki mætt í skólann vegna þessa og í öðrum tilvikum hafa foreldrar fært börnin sín í aðra skóla.“
Foreldrar barnanna telja ekki áhættunnar virði að börnin verði áfram í skólanum á meðan mygla sé enn í skólanum, en á rúmlega tveimur árum hafi ekki tekist að uppræta hana. Það sé ómögulegt að tryggja að myglumengun berist ekki inn í skólastofur eða sameiginleg rými.
„Þá er ekki skynsamlegt að ráðast í viðgerðir á meðan skólastarf stendur yfir því margoft hefur komið í ljós, m.a. hér á landi, að þegar viðgerðir hefjast vegna myglu í húsum, á meðan fólk er þar inni, hafa veikindi versnað,“ segir í áskorun foreldranna, en þau kalla eftir því að framkvæmdir hefjist þegar í stað og nýtt húsnæði fyrir skólastarf verði fundið sem fyrst.