Milka og Williams eru á sínu öðru tímabili hjá Keflavík og hafa reynst liðinu frábærlega. Kjartan Atli Kjartansson bað þá Hermann og Sævar að velja á milli þessara öflugu leikmanna. Og þeir komust að sömu niðurstöðu.
„Ég hugsa að ég myndi velja Williams því hann færir þér eitthvað varnarlega og svo er hann háloftafugl. Hann gerir leikinn skemmtilegri. Hann sprengir upp leikina og er með X-faktor sem ég myndi vilja hafa í liðinu mínu,“ sagði Sævar.
Hermann tók í sama streng og Sævar. Hann sagði að það væri þægilegra að smíða lið í kringum Williams en Milka.
„Ég myndi allan tímann velja Williams. Eins frábær sóknarmaður og geggjaður varnarmaður og mér finnst hann vera er líka auðveldara að velja fjóra leikmenn með honum en fjóra leikmenn með Milka. Þú getur tekið áhættu með hina og tekið gæja sem mega missa manninn sinn framhjá sér,“ sagði Hermann.
Framlenginguna má sjá hér fyrir ofan.