Lilja hefur ekki veitt fjölmiðlum kost á viðtali í dag eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði því að fella úr gildi úrskurð kærunefndar í jafnréttismálum um að hún hafi brotið jafnréttislög þegar hún skipaði Pál Magnússon ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Aðstoðarmaður Lilju staðfesti þó að ráðherrann ætlaði að áfrýja dómnum til Landsréttar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sagði einnkennilegt að Lilja ætlaði að áfrýja málið og sérskennilegt að ráðherrann hefði lagt upp í málareksturinn yfir höfuð í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Dómurinn hafi verið skýr, afdráttarlaus og þungur í garð ráðherra. Bæði kærunefnd og dómstólar hafi komið að afdráttarlausri niðurstöðu um að leikreglur hafi verið brotnar við skipan ráðuneytisstjórans.
„Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé vond lögfræði í þessu máli og enn verri pólitík. Hún hefði ekki átt að leggja af stað með þetta en hefur sagt hérna inni í þingsal að hún sé með þessu að standa með sinni sannfæringu. Niðurstaða dómsins í dag er sú að sannfæring hennar stenst ekki skoðun,“ sagði Þorbjörg Sigríður.
Málið í heild telur hún „vondan spegil“ á heilbrigða jafnréttispólitík, að ríkisvaldið fari fram með þesusm hætti gegn einstaklingi sem taldi brotið á rétti sínum.
„Mér finnst þetta umhugsunarverð stefna í jafnréttismálum af hálfu stjórnarinnar,“ sagði þingmaðurinn.
Ríkið var dæmt til að greiða allan málskostnað Hafdísar Helgu Ólafsdóttur sem kærði skipan í stöðu ráðuneytisstjórans upp á fjórar og hálfa milljón króna.
Lilja skipaði Pál í embættið frá 1. desember 2019 en hann var lengi virkur í Framsóknarflokki Lilju og hefur meðal annars starfað sem aðstoðarmaður ráðherra og bæjarritari Kópavogs.