Talsmenn lögregluyfirvalda útilokuðu ekki í gær að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða, en saksóknari greindi frá því í dag að árásin verði ekki rannsökuð sem slík, heldur sem tilraun til morðs.
SVT hefur eftir saksóknaranum Adam Rullman að umfangsmikil rannsókn standi nú yfir þar sem hald hafi verið lagt á ýmis gögn eftir húsleit hjá manninum.
Hann segist ekki geta gefið upp um ríkisfang mannsins, en að hann hafi „tengingu við annað land“ og hafi verið búsettur í Vetlanda síðustu ár.
Lögregla hefur áður greint frá því að hinn handtekni hafi áður komið við sögu lögreglu vegna smærri brota. Hann hafi verið yfirheyrður í nótt vegna árásarinnar í gær.
Ástand þriggja þeirra sem ráðist var á í gær er sagt vera lífshættulegt og þá eru tveir til viðbótar sagðir alvarlega særðir. Aðrir eru sagðir vera minna særðir.