„Þetta er bara besti dagur ársins. Hér er bara heiðskír himinn og sól,“ segir Einar eftir að samstarfsmaður hans hafði afhent honum símtólið. Sá hafði engan áhuga á að ræða við blaðamann, greinilegt hver svarar fyrir skíðasvæðið í Bláfjöllum.
„Ég var úti á palli, á stuttermabolnum. Þess vegna svaraði ég ekki í símann,“ segir Einar léttur þótt tilefnið sé heldur leiðinlegt fyrir rekstrarstjóra skíðasvæðis.
„Þetta er blóðugt, að sjálfsögðu,“ segir Einar en hann telur að nokkur hundruð manns hafi verið í fjallinu um þrjúleytið þegar að krafan kom frá almannavörnum. Þegar loka þarf svæðinu taka starfsmenn sér stöðu við hliðin. Þeir sem eru komnir inn fyrir fara sína síðustu ferð en aðrir fá tíðindin leiðinlegu. Lokað í bongóblíðu vegna jarðskjálfta.
Að beiðni Almannavarna þurfum við að loka Bláfjöllum vegna hættuástands. Sjá texta hér fyrir neðan. Aðgerðarstjórn...
Posted by Skíðasvæðin - Bláfjöll & Skálafell on Wednesday, February 24, 2021
Einar segir fólk heilt yfir hafa tekið tíðindum af stóískri ró. Allir hafi heyrt tíðindi af skjálftunum og ekkert vesen hafi verið á staðnum. Sumir hverjir eru þó ekkert að flýta sér af svæðinu, brettakrakkar rölti upp brekkuna til að geta náð viðbótarferðum og starfsfólkið sé að loka svæðinu í rólegheitum.
„Það er fáránlegt að horfa út um gluggann, á bláan himinn, það er logn og sól og ég má ekki hafa opið,“ segir Einar og kemst ekki hjá því að skella upp úr. Færið sé mjög gott.
„Ægilega gott. Það eru allir bara „geðveikt færi“.“
Hann segist sannarlega vonast til þess að það styttist í næsta góðviðrisdag í fjallinu. Helst mætti hann koma strax á morgun.