Í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag sagði Birgir eðlilegt að valdbeitingarheimildir lögreglu séu skoðaðar samhliða rannsókn á alvarlegum atburðum. Ákjósanlegt væri að kalla lögreglu- og dómsmálayfirvöld fyrir nefndina.
Þannig mætti skoða hvaða breytingar hafi átt sér stað í umhverfi lögreglu á liðnum árum. „Og farið sé yfir hvort lögreglan sé eins og við viljum að hún sé í stakk búin til að bregðast við alvarlegri stöðu og alvarlegum afbrotum,“ sagði Birgir.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, sagði á Bylgjunni í gær að vopnareglur lögreglu verði teknar fyrir á fundi lögregluráðs sem fram fer á fimmtudaginn. Nokkur umræða hefur verið um aðbúnað lögreglu í kjölfar morðsins sem átti sér stað um síðustu helgi og vangaveltur verið uppi um hvort málið sé merki um aukna hörku í undirheimum.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri Grænna, talaði á öðrum nótum en Birgir á Alþingi í dag.
„Hvernig þjóð viljum við vera? Mitt svar er einfalt hvað það varðar um að efla hina almennu lögreglu. Við eigum ekki að stíga þau skref að auka vopnaburð hennar,“ sagði Kolbeinn.

Hann benti á að sérsveit lögreglu hafi yfir vopnum að ráða. „Það er sjálfsagt að við ræðum það hvernig lögreglunni, sem sinnir gríðarlega mikilvægu hlutverki, gengur að vinna gegn skipulagðri glæpastarfsemi,“ sagði hann og bætti við að fara mætti í heildstæða skoðun á því hvort einhverju þurfi að breyta. „En við þurfum að ákveða hvernig þjóð við viljum vera. Mín skoðun er sú að við viljum áfram vera þjóð þar sem hin almenna lögregla er ekki vopnum búin.“