Myndband af honum ræða við annan lögmann og dómara á Zoom á dögunum fór eins og eldur í sinu um netið í gærkvöldi og í dag. Á því var Ponton með kveikt á svokölluðum filter þar sem andliti hans var breytt í andlit kattar.
Sjá einnig: „Ég er ekki köttur“
Þar ítrekaði Ponton að hann væri svo sannarlega ekki köttur, þó hann liti út fyrir það, og sagði aðstoðarkonu sína vera að reyna að slökkva á filternum.
Poton var að nota tölvu aðstoðarkonu sinnar fyrir fundinn. Hann sagði að í upphafi hafi allt virst í lagi en um leið og dómarinn tók til máls hafi andlit hans breyst í kött.
Dómarinn, Roy Ferguson, deildi myndbandinu á samfélagsmiðlum og ítrekaði fyrir fólki að hafa slökkt á filterum fyrir fjarréttarhöld.
Ponton sagði að dómarinn hefði haft gaman af þessum mistökum og að allir sem hafi átt í vandræðum með tölvur eða Zoom ættu að kannast við mistök sem þessi.
„Ég vissi ekki að Zoom gæti breytt mér í kött. Ég vissi ekki að kattaZoom gæti gert mig að netstjörnu, en þetta gerðist allt á nokkrum klukkustundum,“ sagði Ponton í samtali við blaðamann BBC.