Estonia sökk í Eystrasalti árið 1994 og var lýst grafreitur af Eistlandi, Svíþjóð og Finnlandi ári síðar. Talið er að 852 hafi farist með ferjunni.
Héraðsdómstóll í Svíþjóð komst að þeirri niðurstöðu í dag að kvikmyndagerðarmennirnir tveir, sem áttu yfir höfði sér sektir eða allt að tveggja ára fangelsi, hefðu sannarlega brotið gegn yfirlýsingu ríkjanna þriggja en það væri ekki hægt að sakfella þá þar sem þeir hefðu farið frá þýsku skipi á alþjóðlegu hafsvæði.
Þjóðverjar eru ekki skuldbundnir af áðurnefndri yfirlýsingu.
Sögðust hafa heyrt háan málmskell
Það var niðurstaða alþjóðlegrar rannsóknar sem lauk árið 1997 að Estonia hefði sokkið í kjölfar þess að framdyrnar á skipinu hefðu opnast í miklum stormi, með þeim afleiðingum að þilfarið þar sem bifreiðarnar voru geymdar fylltist af sjó.
Um borð voru 803 farþegar og 186 áhafnarmeðlimir en aðeins 138 komust lífs af.
Meðal þeirra voru margir sem héldu því fram að þeir hefðu heyrt háan málmskell um það bil 50 mínútum áður en ferjan sökk en rannasakendur neituðu þeim möguleika að gat hefði komið á skrokk ferjunnar.
Upptökur kvikmyndagerðarmannanna sýndu hins vegar stórt gat á stjórnborða skipsins, sem sérfræðingar segja að hafi líklega orðið til við árekstur við þúsund til fimmþúsund tonna fyrirbæri á ferð.
Forsætisráðherra Eistlands sagði í fyrra að myndirnar vektu spurningar sem svör þyrftu að fást við og í desember síðastliðnum greindu Svíar frá því að til stæði að breyta lögum þannig að hægt yrði að rannsaka flakið upp á nýtt.