Erlent

Sam­kyn­hneigðir menn sem flúðu ofsóknir á­kærðir fyrir hryðju­verk

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ramzan Kadyrov, leiðtogi Téténíu, segir enga samkynhneigða menn að finna í lýðveldinu.
Ramzan Kadyrov, leiðtogi Téténíu, segir enga samkynhneigða menn að finna í lýðveldinu. Getty/Yelena Afonina

Yfirvöld í Téténíu hafa hrundið af stað rannsókn vegna meintra hryðjuverka tveggja samkynhneigðra manna sem flúðu lýðveldið í fyrra en voru handteknir í Moskvu í síðustu viku og sendir aftur til baka.

Téténía er sjáfstjórnarlýðveldi í Rússlandi og hafa fregnir þess efnis borist frá árinu 2017 að samkynhneigðir menn séu pyntaðir, handteknir og drepnir vegna kynhneigðar sinnar. Mannréttindasamtök sem hjálpuðu mönnunum tveimur að flýja lýðveldið segja það ekki alveg ljóst hvers vegna verið sé að sækja þá til saka. Annar þeirra hafi hins vegar verið yfirheyrður áður fyrir að hafa deilt LGBTQ tjámyndum á netinu.

Salekh Magamadov, 20 ára, og Ismail Isayev, 17 ára, voru staddir i borginni Nizhny Novgorod austur af Moskvu síðastliðinn fimmtudag þegar þeim var rænt samkvæmt samtökunum Russian LGBT Network.

Annar mannanna hringdi í neyðarlínu samtakanna síðdegis þann dag og starfsmaður samtakanna heyrði öskur í bakgrunninum. Lögmaður sem heimsótti íbúðina, sem þeir höfðu dvalið í, stuttu eftir að símtalið barst sagði að augljós merki væru þar um átök.

Mennirnir tveir birtust síðan að nýju í gæsluvarðhaldi í Téténíu. Tim Bestsvet, talsmaður LGBT network, segir að lögmönnum hafi verið meinað að heimsækja þá og enginn viti hvar mennirnir eru í haldi.

Hann lýsir einnig yfir áhyggjum yfir öryggi mannanna og bendir á dæmi um að karlmenn hafi verið fluttir aftur til Téténíu vegna meintra glæpa en hafi síðan horfið eða dáið. Magamadov og Isayev gætu átt yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsi verði þeir fundnir sekir.

Þeir flúðu Téténíu í júní síðastliðnum eftir að þeir voru handteknir og pyntaðir fyrir að halda utan um stjórnarandstöðuspjallþráð á forritinu Telegram.

LGBT network hefur hjálpað um 200 manns að flýja lýðveldið, annað hvort til annars lands eða annarra hluta Rússlands, síðan ofsóknir á hendur hinseginfólki hófust þar fyrir fjórum árum. Einhverjir telja að ofsóknirnar sé hægt að rekja til þess að hinseginhreyfingar í Rússlandi fóru að verða sýnilegri árin 2016 og 2017.

Yfirvöld í Téténíu hafa ítrekað neitað ásökunum um ofsóknir þrátt fyrir að fjöldi manna hafi stigið fram og sagt frá ofbeldi, pyntingum og mannránum af hálfu lögreglu. Ramzan Kadyrov, leiðtogi lýðveldisins, hefur verið ásakaður um fleiri mannréttindabrot og heldur hann því fram að samkynhneigða menn sé ekki að finna í Téténíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×