„Þetta er frábær reynsla. Þetta eru blendnar tilfinningar. Þetta var skemmtileg en dálítið næstum því mót. Maður er svekktur að hafa ekki fengið fleiri sigra en geggjuð reynsla og vonandi mörg ár eftir í þessu,“ sagði Elliði í samtali við RÚV.
Hann sagðist glaður að hafa keppt við þá bestu.
„Þetta var geggjað. Vonandi förum við upp með Gummersbach svo maður fái fleiri svona leiki og verði betur undirbúnir fyrir næsta ár.“
Það losnaði meira um línuspilið í dag og Elliði segir að meira hafi verið farið í blokkeringar.
„Við settum fleiri blokkeringar og vorum að rikkja minna. Svo var líka betra flot á boltanum og það var auðveldara að búa sér til pláss á línunni.“
Eyjamaðurinn fékk þrjú rauð spjöld á mótinu og sló á létta strengi er hann var spurður út í þau.
„Það er fimmtíu prósent nýting. Þetta er bara einelti. Maður kemur frá Vestmannaeyjum og það er einhver saga komin til dómaranna. Ég get ekkert gert í þessu.“
Hann er spenntur fyrir framtíðinni með landsliðinu sem hefur verið að byggjast upp síðustu ár.
„Maður fær tilfinninguna að þetta sé að byrja. Við erum með gott lið og erum með góða uppbyggingu. Elvar og Ýmir hafa komið sterkir inn og maður fær góða tilfinningu fyrir þessu. Þetta lofar góðu finnst mér,“ sagði Elliði að lokum við RÚV.