„Bandaríkin eru, og verða alltaf að vera, þjóð laga og reglna,“ segir Trump í myndbandinu.
Það kveður því við annan tón en í því myndbandi sem hann birti í gær, þar sem hann sagðist skilja reiði fólks og ítrekaði fullyrðingar sínar um víðtækt kosningasvindl. Hann sagðist elska þá sem væru að mótmæla, en bað þá um að fara heim.
Samfélagsmiðillinn eyddi myndbandinu í kjölfarið, sem og tveimur öðrum færslum, þar sem þær innihéldu ósannar fullyrðingar og voru taldar geta ýtt undir ofbeldi.
Í myndbandinu sem birt var nú fyrir skömmu beindi hann orðum sínum að þeim sem réðust inn í þinghúsið.
„Til þeirra sem tóku þátt í ofbeldis- og eyðileggingarverkum: Þið eruð ekki fulltrúar okkar þjóðar. Og til þeirra sem brutu lögin, þið munuð gjalda fyrir það.“
Hann segist leggja mikla áherslu á friðsæla valdayfirfærslu þegar Joe Biden tekur við embætti forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar næstkomandi. Hann kallaði þó eftir endurskoðun á kosningalögum þar í landi.
„Framboð mitt reyndi allar leiðir til þess að hnekkja úrslitum kosninganna. Mitt eina markmið var að tryggja heiðarleika kosninganna. Með því var ég að berjast svo hægt væri að verja lýðræðið í landinu.“
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 8, 2021