Erlent

Íbúum Suður-Kóreu fækkar í fyrsta sinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Fæðingartíðni í Suður-Kóreu er mjög lág og lífslíkur miklar.
Fæðingartíðni í Suður-Kóreu er mjög lág og lífslíkur miklar. AP/Ahn Young-joon

Íbúum Suður-Kóreu fækkaði í fyrra þar sem fleiri dóu en fæddust. Er það í fyrsta sinn sem slíkt gerist í landinu í manna minnum og yfirvöld segja bæi í fátækari héruðum Suður-Kóreu standa frammi fyrir útrýmingu.

Alls fækkaði Kóreumönnum um 20.838 á milli ára og eru íbúar landsins nú 51.829.023 talsins.

Samkvæmt Yonhap fréttaveitunni fækkaði fæðingum um rúm tíu prósent á milli ára. Um það bil 8,64 milljónir manna eru á sextugsaldri í Suður-Kóreu, eða um 16,7 prósent allra íbúa og er það stærsti hópurinn. Heilt yfir er um fjórðungur íbúa landsins meira en 60 ára gamall.

Suður-Kórea er tólft stærsta hagkerfi heimsins. Þar eru lífslíkur með þeim hæstu í heiminum en fæðingatíðni með þeim lægstu. Eins og bent er á í frétt AFP fréttaveitunnar er það ávísun á efnahagsvandræði til lengri tíma.

Þrátt fyrir að hið opinbera hafi varið miklu púðri í að reyna að auka fæðingatíðni í Suður-Kóreu á undanförnum árum hefur það ekki skilað árangri. Búst er við því að íbúar landsins verði einungis 39 milljónir árið 2067 og að þá verði meðalaldur um 62 ár.

Sérfræðingar sem blaðamenn fréttaveitunnar ræddu við segja kostnað við að ala upp barn vera himinháan í Suður-Kóreu og það sama megi segja um fasteignaverð. Þar að auki er samkeppni gífurlega mikil í samfélaginu og reynist fólki erfitt að komast í hálaunastörf.

Mikið álag á mæðrum varðandi heimilishald og vinnu spili einig inn í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×