Samfylkingin fagnar tuttugu ára afmæli í dag. Flokkurinn varð til við samruna Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Samtaka um kvennalista sem mynduðu kosningabandalag sem bauð fram undir nafni Samfylkingarinnar í alþingiskosningum árið 1999. Formlega var flokkurinn þó stofnaður á stofnfundi sem fram fór í Borgarleikhúsinu á þessum degi fyrir tuttugu árum.
Í ljósi aðstæðna í samfélaginu verður það að bíða betri tíma að halda veislu í tilefni af afmælinu að sögn Loga Einarssonar, formanns flokksins. Upphaflega átti að halda fjölmennan viðburð næstkomandi föstudag en samkomubann og fjarlægðartakmarkanir koma í veg fyrir að svo verði.
Sjá einnig: Samfylkingin tekur upp nýtt merki
„Við erum auðvitað eldgamall unglingur, við erum ekki nema 20 ára en við eigum auðvitað rætur langt aftur í stéttabaráttu og baráttu fyrir jöfnuði,“ segir Logi í samtali við fréttastofu en hann varð að láta nægja að flytja félögum sínum í Samfylkingunni rafræna kveðju í dag.
„Við höfum auðvitað hrifist og hreyfst með þjóðinni. Okkar gengi hefur verið upp og niður og vonandi er það á uppleið núna,“ segir Logi en ítarlegra viðtal við hann má sjá í spilaranum hér að neðan.