Skoðun

Verjum störfin

Drífa Snædal skrifar

Það líður vika á milli föstudagspistla en framvindan er slík að það gæti allt eins verið heilt ár. Áhyggjur og viðbrögð við ástandinu eru aðrar en fyrir viku og barátta okkar í verkalýðshreyfingunni breytist frá degi til dags. Ljósið í myrkrinu er að aðgerðir heilbrigðisyfirvalda skila árangri í að hægja á útbreiðslu veirunnar. Því skal þó haldið til haga að einn lykillinn að því er að gera fólki kleift að vera heima og fá tekjur.

Frumvarpið um laun í sóttkví sem var samþykkt fyrir sléttri viku var þungt lóð á vogaskálar þess að vernda fólk fyrir veikindum. Lögin um hlutabætur er annar lykill. Það sýnir sig á fjölda umsókna að þetta úrræði hægir á atvinnuleysi og viðheldur ráðningarsambandi. Öll okkar verkefni þessa dagana snúa einmitt að því að miðla upplýsingum til vinnandi fólks, halda fólki í ráðningarsamböndum og tryggja að fólk haldi tekjum. Síðasta atriðið er sérstaklega mikilvægt því að til að við náum viðspyrnu með sumrinu og hjól atvinnulífsins fari að snúast þarf fólk að hafa tekjur.

Alþýðusambandið er í stöðugum viðræðum við stjórnvöld og atvinnurekendur um frekari aðgerðir. Það eru ákveðnir hópar sem falla á milli skips og bryggju sem þarf að tryggja framfærslu. Það er líka mikilvægt að tryggja að við komumst út úr þessu ástandi með sanngjarnt og réttlátt samfélag þar sem enginn getur skotið sér undan ábyrgð á okkar samfélagslegu verkefnum - að tryggja heilsu og velferð og verja kjörin.

Farið vel með ykkur! Drífa




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×