Innlent

Ís­land ekki lengur flokkað sem rautt svæði hjá Sótt­varna­stofnun Evrópu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sóttvarnastofnun Evrópu uppfærir litakóðana vikulega. Þetta kort sem sést hér tók gildi í gær. Ljósgrátt þýðir að löndin eru ekki með í tölfræðinni og dökkgrátt þýðir að tölfræðin liggur ekki fyrir.
Sóttvarnastofnun Evrópu uppfærir litakóðana vikulega. Þetta kort sem sést hér tók gildi í gær. Ljósgrátt þýðir að löndin eru ekki með í tölfræðinni og dökkgrátt þýðir að tölfræðin liggur ekki fyrir. Sóttvarnastofnun Evrópu

Ísland er ekki lengur skilgreint sem rautt svæði vegna kórónuveirunnar hjá Sóttvarnastofnun Evrópu heldur appelsínugult.

Sóttvarnastofnunin er með þrjá litakóða fyrir það hvernig staðan er í Evrópulöndum varðandi faraldurinn. Land fær grænan lit ef fjórtán daga nýgengi á hverja 100 þúsund íbúa er undir 25 og hlutfall jákvæðra sýna undir 4%.

Appelsínuguli liturinn, sem Ísland hefur nú, þýðir annað hvort að nýgengið sé undir 50 en hlutfall jákvæðra sé yfir 4% eða þá að nýgengið sé á bilinu 25 til 150 og hlutfall jákvæðra sýna undi 4%. Samkvæmt tölfræðiupplýsingum á covid.is er nýgengi innanlandssmita hér nú 106,1.

Langflest Evrópulönd sem merkt eru með litakóða hjá Sóttvarnastofnuninni eru rauð, líkt og Ísland hefur verið merkt undanfarnar vikur.

Rautt þýðir að nýgengi smita sé annað hvort 50 eða hærra og að hlutfall jákvæðra sýna sé 4% eða hærra eða þá að nýgengið sé hærra en 150.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×