Íslensku landsliðin í körfubolta áttu að spila leiki í Laugardalshöllinni í nóvember. Karlaliðið átti að spila tvo leiki í undankeppni HM á meðan kvennaliðið átti stakan heimaleik í undankeppni EM áður en það myndi halda ytra.
Nú er ljóst að ekkert verður af leikjunum í Laugardalshöllinni. Þess í stað fara bæði lið erlendis og verða fyrri umferðir beggja undankeppna leiknar á aðeins nokkrum dögum. Karlalandsliðið heldur til Slóvakíu á meðan kvennalandsliðið fer til Grikklands.

Upprunalega átti A-landslið kvenna að mæta Slóveníu í Laugardalshöllinni þann 12. nóvember og Búlgaríu ytra þremur dögum síðar. Báðir leikir eru hluti af undankeppni EM sem fram fer á næsta ári. Nú fer liðið hins vegar til Heraklion í Grikklandi þar sem það mætir heimastúlkum, Slóvenum og Búlgörum frá 8. til 15. nóvember.
A-landslið karla átti tvo heimaleiki gegn Lúxemborg og Kósovó framundan í Laugardalnum. Báðir leikir hluti af undankeppni HM sem fram fer árið 2023. Áttu leikirnir að fara fram 26. og 29. nóvember. Ekkert verður af því og mun liðið í stað þess halda til Bratislava í Slóvakíu þar sem það mætir heimamönnum, Lúxemborg og Kósovó dagana 23. til 29. nóvember.
Here are the hosts for the upcoming #FIBAWC 2023 European Pre-Qualifiers!
— Basketball World Cup (@FIBAWC) October 8, 2020
November 23-29
https://t.co/kD5f88szqO pic.twitter.com/1DvATgEGOC
Þetta kemur fram á vef Alþjóða körfuknattleikssambandsins, FIBA. Ástæðan er kórónufaraldurinn og er talið að þetta fyrirkomulag henti betur að svo stöddu. Sem stendur mun síðari umferð beggja undankeppna fara fram með svipuðu sniði í febrúar á næsta ári.