Starfsmaður í Melaskóla hefur greinst með kórónuveirusmit en í gær voru ellefu starfsmenn sendir heim vegna gruns um kórónuveirusmit í skólanum.
Komið hefur fram að maki eins starfsmanns Melaskóla hafi greinst með Covid-19 fyrir nokkrum dögum. Í kjölfarið fór fjölskyldan í sóttkví frá og með síðastliðnu þriðjudagskvöldi, þar á meðal starfsmaður Melaskóla.
Í bréfi til foreldra og forráðamanna nemenda í Melaskóla segir Björgvin Þór Þórhallsson, skólastjóri Melaskóla, að viðkomandi starfsmaður hafi farið í skimun fyrir kórónuveirunni, og reynst jákvæður. Hjá honum tekur við 14 daga sóttkví.
„Rakningateymi almannavarna hefur nú ákveðið að fjórir starfsmenn til viðbótar fari einnig í sóttkví í 14 daga. Enginn nemandi þarf að fara í sóttkví,“ skrifar Björgvin í bréfinu.
Greint var frá því í gær að ellefu starfsmenn hafi verið sendir heim, flestir þeir hafi verið nálægt viðkomandi starfsmanni en aðrir hafi verið beðnir um að halda sig heima vegna undirliggjandi sjúkdóma.
Í bréfinu segir Björgvin að einn þeirra hafi orðið lasinn, farið í skimun, en reynst neikvæður.
„Og rétt að taka fram að allir starfsmennirnir hafa verið og eru nú einkennalausir,“ skrifar Björgvin ennfremur. Þá muni hann í framhaldinu upplýsa foreldra og forráðamenn um hvaða áhrif þetta eina smit muni hafa á skólastarfið í skólanum næstu daga, sem hófst formlega í vikunni.