Innlent

Sektað vegna um sjö­tíu brota öku­manna nærri skólum í Breið­holti

Telma Tómasson skrifar
Á þessum árstíma fylgist lögreglan sérstaklega með umferð við grunnskólana á höfuðborgarsvæðinu.
Á þessum árstíma fylgist lögreglan sérstaklega með umferð við grunnskólana á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu myndaði þrjátíu brot ökumanna í námunda við Hólabrekkuskóla í gær, en á þessum árstíma fylgist lögreglan sérstaklega með umferð við grunnskólana á höfuðborgarsvæðinu.

Bæði merktir og ómerktir bílar geta verið á ferðinni við skólana, en eitt þessara ökutækja er sérstakur myndavélabíll. Honum var lagt við Austurberg við upphaf skóladags í gærmorgun og reyndist næstum þriðjungur ökumanna aka of hratt eða yfir afskiptahraða, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni.

Meðalhraði hinna brotlegu var 43 kílómetrar á klukkustund þar sem hámarkshraði er 30.

Eftir hádegi var myndavélabílnum lagt í námunda við Fellaskóla og fylgst með ökutækjum sem var ekið vestur Norðurfell. Var útkoman þar síst betri því 46 af 104 ökumönnum fengu sekt fyrir hraðakstur.

Leyfður hámarkshraði þar eru 30 km/klst en sá sem hraðast ók í mældist á 65 km hraða og á viðkomandi yfir höfði sér ökuleyfissviptingu í þrjá mánuði og 70 þúsund króna sekt.

Hefur lögregla minnt ökumenn á að virða hámarkshraða og sýna aðgát í umferðinni, ekki síst nú þegar skólahald er hafið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×