Erlent

Forsetinn segir stöðuna í Suður-Kóreu verri en í vor

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Forseti Suður-Kóreu segir að neyðarástand sé nú í landinu vegna kórónuveirunnar. Fleiri en hundrað smit hafa greinst á hverjum degi síðustu ellefu daga.

Eftir lægð í faraldrinum varð kippur í höfuðborginni Seúl á dögunum. Síðan þá hefur faraldurinn breiðst út til annarra borga á nýjan leik og hefur fjöldi smita greinst í til dæmis Busan, Daejeon og Sejong.

Moon Jae-in forseti var ómyrkur í máli í dag og sagði að mögulega væri staðan nú alvarlegri en í upphafi kórónuveirufaraldursins. Hann gagnrýndi þá harðlega sem bera ekki virðingu fyrir sóttvarnarreglum.

„Sérstaklega þegar fólk hundsar reglurnar vísvitandi, sýnir ekki samstarfsvilja og stuðlar þannig að frekari útbreiðslu veirunnar. Þeim tilfellum sem ekki er hægt að rekja fjölgar hratt. Hér er algjört neyðarástand og það getur ekki bara hver sem er sýkst, fjöldi smitaðra gæti margfaldast.“

Þá sagði Moon að mögulega þyrfti að herða aðgerðir. Ef fram heldur sem horfir þurfi mögulega að loka vinnustöðum alveg, jafnvel þótt efnahagslegar afleiðingar þess verði gríðarlegar.


Tengdar fréttir

Suður-Kórea á „barmi landlægs faraldurs“

Yfirvöld í Suður-Kóreu tilkynntu í morgun mestu fjölgun nýsmitaðra þar í landi frá því í mars. Sóttvarnaaðgerðir voru framlengdar og mögulega stendur til að herða þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×