Martin Hermannsson átti góðan leik þegar Alba Berlin vann öruggan sigur á Brose Bamberg, 107-70, í þýsku úrvalsdeildinni í körfubolta í dag.
Þetta var þriðji sigur Alba Berlin í deildinni í röð. Liðið er í 3. sæti með 28 stig, sex stigum á eftir toppliði Bayern München. Alba Berlin á einn leik til góða á Bayern og tvo á Ludwigsburg sem er í 2. sætinu.
Martin skoraði 14 stig, tók þrjú fráköst og gaf sex stoðsendingar í leiknum í dag.
Íslenski landsliðsmaðurinn hitti úr fjórum af sex skotum sínum inni í teig og tvö af fimm skotum hans fyrir utan þriggja stiga línuna rötuðu rétta leið.
Alba Berlin hefur verið á góðu skriði að undanförnu og unnið fimm af síðustu sex leikjum sínum í öllum keppnum.
