Það var boðið upp á fullt af mörkum í seinni leikjum dagsins í A-deild Lengjubikars karla í fótbolta.
Í Breiðholti áttust við 1.deildarliðin ÍBV og Vestri en ÍBV féll úr Pepsi-Max deildinni síðasta sumar á sama tíma og Vestri komst upp úr 2.deildinni.
Vestri komst yfir snemma leiks með marki Vladimir Tufegdzic en Eyjamenn skoruðu þrjú mörk á átta mínútna kafla frá 29.mínútu til 37.mínútu. Tómas Bent Magnússon, Telmo Castanheira og Jose Sito sá um markaskorun Eyjamanna áður en Tufegdzic minnkaði muninn fyrir Vestra. Staðan í leikhléi 3-2 og það reyndust lokatölur.
Eyjamenn á toppi riðils 4 með 9 stig eftir fjóra leiki en Vestri hefur 6 stig eftir fjóra leiki.
Í Reykjaneshöllinni var sömuleiðis 1.deildar slagur þar sem Magni Grenivík var í heimsókn hjá Keflvíkingum.
Skemmst er frá því að segja að Keflvíkingar unnu öruggan fimm marka sigur, 5-0. Keflavík með 9 stig eftir fjóra leiki en Grenvíkingar eru stigalausir eftir þrjá leiki.
ÍBV tyllti sér á toppinn með naumum sigri á Vestra
