Starfsmaður í forsætisráðuneytinu hefur greinst með kórónuveiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Tveir samstarfsmenn voru í kjölfarið settir í heimasóttkví og hafa verið tekin sýni úr þeim báðum. Annar reyndist ekki smitaður en beðið er eftir niðurstöðum hjá hinum starfsmanninum.
Rósa Guðrún Erlingsdóttir, upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu RÚV. Sá starfsmaður sem reyndist ekki smitaður mun þó áfram vera í heimasóttkví í varúðarskyni.
Að sögn Rósu Guðrúnar var starfsmaðurinn ekki með starfsaðstöðu í stjórnarráðshúsinu og átti hann ekki í neinum samskiptum við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra eftir smitið. Framkvæmdir standa nú yfir við stjórnarráðshúsið og hefur ríkisstjórnin því ekki fundað þar undanfarnar vikur.
Breyttar verklagsreglur eru nú í gildi í ráðuneytinu eftir að viðbúnaðarstig vegna COVID-19 var hækkað í neyðarstig. Engin fundarhöld fara fram í húsinu og mega starfsmenn ekki nota mötuneytið á sama tíma.
Tvö smit kórónuveirunnar greindust til viðbótar í morgun hjá einstaklingum sem báðir komu til landsins með flugi frá Veróna á Ítalíu síðastliðinn laugardag. Hafa því fimm einstaklingar úr því flugi greinst með veiruna.
Alls eru greind smit hérlendis orðin 60 talsins. 50 smit hjá einstaklingum sem hafa verið að koma erlendis frá og 10 sem smitast hafa innanlands.
Starfsmaður forsætisráðuneytisins smitaður af kórónuveirunni

Tengdar fréttir

Eins árs gamalt barn á meðal þeirra Íslendinga sem greinst hafa með kórónuveiruna
Fimmtíu hafa nú greinst með kórónuveiruna hér á landi þar af eru sjö innanlandssmit. Einn þeirra Íslendinga sem fengið hefur kórónuveiruna er eins árs gamalt barn.

Stöðva heimsóknir til íbúa Hrafnistuheimilanna
Í Hrafnistuheimilunum átta, sem staðsett eru í fimm sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ hefur verið tekin sú ákvörðun að stöðva allar heimsóknir til íbúa frá og með morgundeginum, 7. mars.

Skoða að kalla inn heilbrigðisstarfsfólk sem komið er á eftirlaun
Sex einstaklingar greindust með kórónuveiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómnum hér á landi í dag og eru stjórnvöld farin að undirbúa aðgerðir til þess að bregðast við álagi.