Erlent

Leggja niður skólahald í mánuð til að hefta útbreiðslu veirunnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Shinzo Abe biður alla skóla um að loka þar til vorfrí hefjast í lok mars.
Shinzo Abe biður alla skóla um að loka þar til vorfrí hefjast í lok mars. AP/Kyodo News

Japönsk stjórnvöld hafa farið fram á það við skólastjórnendur í öllum grunn-, mið- og framhaldsskólum landsins um að fella niður skólahald þar til vorfrí hefst í lok mars til að hægt verði að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar mannskæðu. Tæplega þrettán milljónir nemendur verða fyrir áhrifum af lokununum.

Shinzo Abe, forsætisráðherra, lýsti næstu tveimur vikum sem afar mikilvægum í að ná tökum á veirunni. Til þess að setja heilsu og öryggi barna í forgang og koma í veg fyrir fjöldasmit á meðal barna og kennara hefði verið ákveðið að fella niður skólastarf næstu vikurnar.

Alls hafa nú 890 tilfelli kórónuveirunnar sem veldur Covid-19-sjúkdómnum greinst í Japan og var tilkynnt um áttunda dauðsfallið vegna hans í dag. Tilfellum sem ekki er hægt að tengja við ferðalög eða önnur staðfest smit hefur fjölgað í norðanverðu landinu, að sögn AP-fréttastofunnar.

Smitin á heimsvísu eru fleiri en 80.000 og hafa hátt í þrjú þúsund manns látið lífið, langflestir í Kína. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur þó lýst áhyggjum af því að hversu mörg tilfelli komi upp utan Kína þar sem veiran skaut fyrst upp kollinum í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×